Sagan endurbyggð

Stórbruni í Kvosinni
Miðbæjarbruninn hinn síðari

Vorið 2007 kom upp eldur á horni Lækjargötu og Austurstrætis og urðu tvö af merkustu timburhúsum Reykjavíkur, staðsett í hjarta borgarinnar, eldinum að bráð.

Á síðasta degi vetrar, 18. apríl árið 2007, kom upp eldur í söluturninum Fröken Reykjavík, sem stóð á milli húsanna á horni Lækjargötu og Austurstrætis.  Eldurinn breiddist hratt út og á skömmum tíma læsti hann klónum í hið fornfræga hús við Austurstræti 22, sem var rúmlega 200 ára gamalt og einnig húsið við Lækjargötu 2, sem byggt  var árið 1852. Erfitt reyndist að ráða niðurlögum eldsins og þegar upp var staðið voru húsin nánast gjöreyðilögð.

Á 20. öld hafa mörg gömul og merkileg hús í Reykjavík orðið eldi að bráð, m.a. í miðbæjarbrunanum mikla árið 1915. Bæði þessi hús skipuðu sérstaklega mikilvægan sess í Reykjavík. Saga þeirra, útlit og staðsetning í hjarta borgarinnar, gerði þau að helstu kennileitum miðbæjarins. Hið menningarlega tjón var því áþreifanlegt.

Skýrsla Brunamálastjóra: http://www.brunamal.is/brunamalastofnun/upload/files/brunarannsoknir/skyrsla_laekjartorg_2007.pdf

Lækjargata 2
Hús Sigfúsar Eymundssonar

ADF 2005 5 24-8 SÞÓ ÁBS 0859 2011 1 12 ADF 2004-24-2 nr 4

Lækjargata 2 hefur allt frá byggingu þess verið einn af hornsteinum miðbæjar Reykjavíkur. Húsið tók talsverðum breytingum í gegnum tíðina þótt í grunninn hafi það ávallt verið sama húsið. 

Árið 1852 byggði P.C. Knudtzon kaupmaður einlyft timburhús á horni Lækjargötu og Austurstrætis, fyrsta hornhús bæjarins. Í bókinni Kvosin: Byggingarsaga miðbæjar Reykjavíkur er húsinu lýst svona:

Þetta var grindarhús og var múrsteini hlaðið í grindina. Það var borðaklætt, með borðaþaki. Sunnan við það var geymsluhús. Þetta var líklega fyrsta húsið sem byggt var beinlínis sem hornhús í Reykjavík. Lækjargata og Austurstræti mynduðu ekki rétt horn sín í milli og húsið var látið fylgja götunum og þakið einnig, þannig að því hallaði frá báðum götum.

Nokkrum árum síðar keypti séra Ólafur Pálsson dómkirkjuprestur húsið og bjó þar um nokkurt skeið. Árið 1871 eignaðist Sigfús Eymundsson ljósmyndari og bóksali Lækjargötu 2 og byggði ofan á húsið. Þar rak hann bókaverslun sem enn er til í dag og er við hann er kennd. Hann stofnsetti einnig ljósmyndastofu í húsinu, og var það um áratugaskeið kallað Eymundsenshús. Sigfús lést árið 1911 og ljósmyndastofan því líklega lögð niður í kjölfarið en bókaverslunin hélt þó áfram starfsemi sinni. Sigfús tók margar myndir af húsinu og því var það eitt mest ljósmyndaða hús borgarinnar. Síðar var ýmiskonar starfsemi í húsinu, meðal annars afgreiðsla og ritstjórnarskrifstofa Morgunblaðsins og Mensa Academica, en svo hét matstofa og félagsmiðstöð stúdenta.

Lækjargata 2 tók töluverðum breytingum í gegnum tíðina. Það var hækkað um eina hæð og einnig lengt til suðurs. Þó að útlit hússins hafi breyst mikið frá byggingu þess árið 1852 þangað til það eyðilagðist í brunanum árið 2007 var það þó alltaf í grunninn sama húsið.

Austurstræti 22
Hús Trampe greifa og Jörgen Jörgensen

Austurstræti 22 hýsti fjölbreytta starfsemi frá byggingu hússins. Þar var eitt sinn landsyfirréttur, Prestaskólinn, Karnabær og Astró til húsa, svo fátt eitt sé nefnt.

SÞÓ ÁBS 0008

Austurstræti 22, sem nú er horfið, er yfirleitt talið fyrsta húsið sem var reist við Austurstræti en það var byggt árið 1801. Ísleifur Einarsson, þá dómari yfir nýstofnuðum Landsyfirrétti, lét reisa húsið. Undirstöður þess voru hlaðnar úr holtagrjóti og taldist grunnflötur hússins vera 11×21 álnir. Lengri hlið hússins snéri að Austurstræti og voru sex gluggar á þeirri hlið en aðaldyr hússins voru fyrir henni miðri. Ísleifur seldi húsið skömmu síðar Frederik Trampe greifa og stiftamtmanni. Trampe greifi lét gera töluverðar breytingar á húsinu og bætti hann meðal annars eldstó í húsið sem talið er að hafi varðveist allt til dagsins í dag en eldstóin stendur enn í hinu nýja húsi að Austurstræti 22. Trampe lét einnig setja gluggahlera fyrir flesta glugga og skraut á húsið. Í eignartíð Trampe var húsið gjarnan kallað Greifahús. Árin 1805-1820 var húsið stiftamtmannsbústaður, íbúð hans og skrifstofa. Aðsetur stiftamtmanns var síðar flutt í tukthúsið við Arnarhól.

Austurstræti 22 spilaði stórt hlutverk í valdaráni Jørgens Jørgensen, eða Jörundar hundadagakonungs eins og hann er gjarnan kallaður, en Jörundur tók hér völd árið 1809. Stiftamtmaður var þá í varðhaldi en Jörundur stjórnaði í hinni stuttu valdatíð sinni úr húsinu sem „Íslands hæstráðandi til sjós og lands“.

Þegar stiftamtmaður flutti úr Austurstræti 22 árið 1820 var þar innréttuð bæjarþingstofa í austurenda hússins en dómsalur Landsyfirréttar var í vesturenda þess. Bæjarstjórnarfundir voru því haldnir í húsinu um allnokkurt skeið. Í húsinu voru einnig íbúðir hinna tveggja lögregluþjóna bæjarins og árið 1828 var bætt við fangageymslu. Þar voru ölvaðir menn gjarnan fluttir en fangageymslan var oft og tíðum kölluð Svartholið sökum þess hve skuggsýnt þar var. Árið 1873 lauk sögu Landsyfirréttar í Austurstræti 22, en rétturinn flutti þá í nýreist hegningarhús við Skólavörðustíg 9. Í húsið flutti þá Prestaskólinn sem áður hafði verið í Sívertsenhúsi. Prestaskólinn var í húsinu til 1911 en þá fluttist hann í Alþingishúsið ásamt hinum nýstofnaða Háskóla Íslands.

Lengi voru reknar verslanir í Austurstræti 22 en árið 1915 opnaði þar Haraldarbúð. Haraldur Árnason kaupmaður hafði eignast húsið áður og breytti hann því töluvert og lét byggja við það. Haraldarbúð var starfrækt til ársins 1960. Árið 1973 var opnuð ein vinsælasta tískufataverslun þess tíma í húsinu, Karnabær og var verslunin starfrækt í húsinu til ársins 1988. Skemmtistaðurinn Astro var síðar rekinn í húsinu og að lokum skemmtistaðurinn Pravda en hann var þar starfræktur þegar húsið brann árið 2007.

Endurbygging – ólíkar aðferðir
Austurstræti 22

Ýmsar leiðir má fara við endurgerð húsa. Við endurbyggingu Austurstrætis 22 eftir brunann var leitast við að endurgera húsið að mestu í upprunalegri mynd.

A22 GB 02 A22 GB 01 A22 GB 03 A22 GB 04 A22 GB 05

Hugmyndin á bak við hönnun Austurstrætis 22 var að endurgera húsið í þeirri mynd sem það var árið 1807, eftir að Trampe greifi hafði breytt því nokkuð frá upprunalegri mynd þess. Húsið er nánast nákvæm eftirlíking eldra hússins sem var svokallað stokkahús. Eftir viðræður arkitekta og borgaryfirvalda var ákveðið að byggja húsið í sama stíl. Timbrið kom frá Norður-Svíþjóð og járnhlutir, eins og hurðalamir og gluggakrækjur voru sérstaklega smíðaðar fyrir húsið. Það var gert á verkstæði Gunnars Bjarnasonar en þar er dálítil aðstaða til eldsmíða. Við byggingu hússins var stuðst við gamlar aðferðir og tækni og verkfæri notuð, lík þeim frá fyrri tíð, til dæmis ýmsar gerðir axa. Svokallaður húsmosi var notaður til að einangra á milli stokkanna og var farinn sérstakur leiðangur út á land til þess að safna mosanum saman. Einn hluti hússins, sem bjargaðist úr brunanum árið 2007, er þó upprunalegur en það er eldstæðið í miðju þess.

Endurbygging – ólíkar aðferðir
Lækjargata 2

Árið 1986 endurteiknaði arkitektinn Hjörleifur Stefánsson alla húsaröðina í Lækjargötu. Í þeirri tillögu var Lækjargata 2 með viðbótarhæð, sem varð svo raunin við endurbyggingu hússins eftir brunann árið 2007.

Lækjargata 2 ný

Arkitektar Lækjargötu 2 leituðust við að hanna og endurgera húsið með byggingararfleið þess að leiðarljósi. Húsið sem nú stendur við horn Lækjargötu og Austurstrætis endurspeglar því húsið sem áður stóð á reitnum og varð eldi að bráð árið 2007.

Við endurgerð Lækjargötu 2 var einni hæð bætt undir það. Gluggar þeirrar hæðar voru hafðir stærri en gluggar á jarðhæð hússins höfðu áður verið. Húsið er því þrílyft í dag. Nútímaaðferðum var beitt við byggingu hússins, ólíkt því sem gert var við endurbyggingu  Austurstrætis 22. Burðarveggirnir á jarðhæðinni eru steyptir en klæddir með grágrýti en efri hæðir hússins hafa beina skírskotun í það hús sem áður stóð á horni Lækjargötu og Austurstrætis. Það má segja að gluggagerð og efnisval jarðhæðarinnar séu samspil ólíkra tíma og í húsinu fléttast þannig fortíðin samtímanum.

Guðjón Þór Grétarsson, Tryggvi Dór Gíslason og Valgerður Óskarsdóttir

Helstu heimildir

Freyja Jónsdóttir. Austurstræti 22. Fasteignablaðið 1. apríl 2003.

Guðmundur Ingólfsson, Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. Kvosin: Byggingarsaga miðbæjar Reykjavíkur. Reykjavík: Torfusamtökin, 1987.

Hjörleifur Stefánsson. Andi Reykjavíkur: GeniusReykiavicencis. Reykjavík: JPV Útgáfa, 2008. Bls. 139.

Páll Líndal. Reykjavík: Sögustaður við Sund, 2. bindi. Ritstj. Einar S. Arnalds.Reykjavík: Örn og Örlygur, 1987. Bls. 150.