Ráðhús Reykjavíkur

PreviewElstu heimildir um ráðhús í Reykjavík eru frá 1799 en þá var rætt um ráðstofu. Það var þó fyrst árið 1918 að Knud Zimsen borgarstjóri í Reykjavík hafði forgöngu um að skipa nefnd um byggingu ráðhúss þó ekki yrði úr framkvæmdum. Síðar komu fram hugmyndir um byggingu ráðhúss og kosnar nefndir og eða efnt til hugmyndasamkeppna til að ganga frá ráðhúsmálum árin 1941, 1945, 1950 og 1955. Dró til tíðinda þann 29. Desember árið 1955 þegar samþykkt var samhljóða í borgarráði að reisa ráðhús við Vonarstræti sunnanvert, á svæði milli Lækjargötu og Tjarnargötu en sögulegt tillit, fegurð staðarins og umhverfi studdu staðarvalið. Jafnframt var samþykkt að kjósa fimm manna nefnd til að undirbúa byggingu ráðhússins. Í nefndina voru kosin Gunnar Thoroddsen, formaður, Auður Auðuns, Jóhann Hafstein, Sigvaldi Thordarson og Alfreð Gíslason. Þær breytingar urðu síðar á nefndinni að Guðmundur Vigfússon tók sæti Sigvalda Thordarson og Magnús Ástmarsson sæti Alfreðs Gíslasonar. Á öndverðu ári 1956 var Þór Sandholt arkitekt ráðinn framkvæmdastjóri nefndarinnar og var honum falið að afla nauðsynlegra gagna og skipuleggja undirbúningsstarfið.

Á fundi ráðhúsnefndar 3. ágúst 1956 var samþykkt að efna til samkeppni meðal Íslendinga um uppdrætti að ráðhúsi og leitað samstarfs við Arkitektafélag Íslands um framkvæmdina. Gekk ráðhúsnefndin frá útboðsskilmálum í samvinnu við stjórn félagsins og samkeppnisnefnd en samkomulag náðist ekki. Nefndin ákvað því á fundi 24. júní 1957 að hætta við samkeppnina og bjóða í þess stað átta arkitektum að taka sameiginlega að sér að gera uppdrættina í samráði við nefndina. Sex tóku boðinu, þeir Einar Sveinsson, Gísli Halldórsson, Gunnar Ólafsson, Halldór H. Jónsson, Sigurður Guðmundsson og Sigvaldi Thordarson. Arkitektamir hófu störf sín 2. júlí 1957 og 14. júlí 1958 lögðu þeir fyrir ráðhúsnefnd fyrstu fullunnu tillöguuppdrætti sína. Nefndin óskaði eftir nánari athugun á ýmsum grundvallaratriðum varðandi fyrirkomulag hússins og lágu nýjar fullnaðartillögur arkitektanna fyrir ráðhúsnefnd í júlí 1959 svo og líkan hússins. Enn voru gerðar margvíslegar breytingar en ekki varð samkomulag um þær tillögur. Var aðallega að því fundið að húsið væri of stórt en tilraunir til að draga úr rúmmálinu leiddu ekki til fullnægjandi lausnar. Jafnframt þessu fóru fram jarðvegsathuganir miðaðar við áðurgreinda tillögu. Eftir að sýnt var að ekki næðist fullnægjandi lausn á grundvelli hennar var farið að nokkru leyti inn á nýjar brautir og í september 1961 var lögð fram ný tillaga. Árið 1962 gerði aðalskipulag borgarinnar ráð fyrir ráðhúsbyggingu við norðurenda Tjarnarinnar. Í febrúar 1962 voru lagðir fram nýir uppdrættir sem fylgdu að meginsjónarmiðum fyrri tillögu. Jafnhliða skipulagsathugunum var unnið að gerð uppdrátta svo og ýmissa sérathugana á einstökum þáttum varðandi útlit hússins og gerð einstakra hluta þess. Í apríl 1963 voru enn lagðir fram uppdrættir en þá hafði og verið gert nýtt líkan af ráðhúsinu og næsta nágrenni þess, sem var síðar stækkað þannig að það nær yfir allt Tjarnarsvæðið. Eftir að sýnt þótti að ráðhúsnefnd myndi fallast á umrædda uppdrætti í öllum aðalatriðum þótti rétt að kynna þá og gafst öllum borgarfulltrúum og varaborgarfulltrúum kostur á að skoða uppdrættina og líkanið. Þann 10.janúar árið 1964 samþykkti borgarráð einróma tillögu ráðhúsnefndar um að ráðhús Reykjavíkur skyldi byggt samkvæmt framlögðum teikningum í norðurenda Tjarnarinnar og vísaði málinu til borgarstjórnar til umræðu.

Ráðhúsið var samkvæmt tillögunni tveggja hæða hús með 6 hæða hábyggingu á eða alls 8 hæðir og var rúmmál þess 28 þúsund rúmmetrar að viðbættum kjallara. Útveggir voru úr steinsteypu, málmi og gleri og útveggir turnsins léttbyggðir en efsta hæðin að mestu úr gleri og svalir í kring. Fyrir norðan húsið átti að leggja steinlagt torg. Uppdrættir að ráðhúsinu voru miðaðir við að húsið rúmaði æðstu borgarstjórn og um langt skeið myndi það geta séð allmörgum af stofnunum borgarinnar fyrir húsnæði. Kaflinn af Skothúsvegi, sem liggur yfir Tjörnina, átti að hverfa og verða þar hólmi með tveim léttum göngubrúm í staðinn. Ráðhúsið átti að standa í norðurenda Tjarnarinnar og ekki þyrfti að ryðja burtu húsum meðan það væri í byggingu en Iðnó og Búnaðarfélagshúsið þyrfti að fjarlægja þegar byggingin yrði tekin í notkun. Til þess að ná torgstærð þeirri, sem tillagan gerði ráð fyrir, þyrfti síðar að fjarlægja Vonarstræti 2, 4B, Templarasund 2, Kirkjutorg 4, Lækjargötu 12A og 12B sem öll stóðu á lóðum í eigu annarra en borgarinnar. Undirbúningi var fram haldið og ráðhúsnefndir störfuðu til ársins 1969 en þá var samþykkt að slá málinu á frest um óákveðinn tíma. Furðu sætir að þráðurinn var ekki tekinn upp að nýju fyrr en árið 1984 og Ráðhús Reykjavíkur reis í núverandi mynd.

Andri Þorvarðarson, Auður Margrét C. Mikaelsdóttir og Sigurjóna Guðnadóttir.

Auglýsingar